Vísindamenn hafa fundið tvær nýjar tegundir pokarottu og risarottu, í skógum afskekkts fjallgarðs í Papúa-héraði í Indónesíu.
Tegundirnar tvær fundust í leiðangri hóps vísindamanna um Foja fjallgarðinn í Papúa í júní síðastliðnum. Fram kemur á fréttavef Reuters að vísindamenn telji tegundirnar vera pokarottu af Cercartetus kyni, eitt af minnstu pokadýrum í heimi, og risarottu af Mallomys kyni.
Spendýrin tvö eru í rannsókn en talið er að þessar tvær tegundir hafi ekki sést áður. Vísindamennirnir festu einnig á filmu áður óséð mökunar uppátæki nokkurra sjaldgæfra og lítið þekktra tegunda fugla.
Vísindamenn frá vísindastofnun Indónesíu uppgötvuðu heilmikið af nýjum plöntum og dýrum á fyrstu ferð þeirra til þessa svæðis, sem var gefið viðurnefnið „týnd veröld”, árið 2005.
Risarottan er fimm sinnum stærri en dæmigerð borgarrotta, sagði Kristofer Helgen, vísindamaður hjá Smithsonian stofnunin í Washington.
Foja óbyggðirnar eru hluti af Mamberamo vatnasvæðinu, stærsta óbyggða regnskógasvæði í Asíu. Svæðið er um 42 milljón hektarar af regnskógum og með auðugustu og fjölbreytilegustu lífsvæðum í heiminum. Talið er að í Papúa séu síðasta óbyggða regnskógasvæði í landinu.
Svæðið er talið í hættu vegna aukins skógarhöggs og hreinsunar landsvæðis fyrir pálmaolíu plantekrur.