Könnun sem gerð var við háskólann í Haifa í Ísrael hefur sýnt fram á að börn sem flytja seint að heiman og eiga gott samband við foreldra sína, sérstaklega móður eru sjálfstæðari og framgangsríkari en börn sem hafa lítið samband við foreldra sína.
Á fréttavef Dagens Nyheter kemur fram að Dr Irit Yanir gerði könnunina með nákvæmum viðtölum við sálfræðinga og 100 fjölskyldur með börn á aldrinum 23 – 27 ára.
Dr Yanir dregur þá ályktun af könnuninni að börn sem eiga náin sambönd við foreldra sína eigi léttara með að deila hugsunum sínum og reynslu, geti hlustað á ráð en jafnframt tekið sjálfstæðar ákvarðanir.
Náið samband við foreldra hefur hingað til verið litið á sem ósjálfstæði en samkvæmt þessari könnun eru þeir einstaklingar sem hafa náið samband við foreldrana fjárhagslega sjálfstæðari og hafa öruggari starfsferil, líta á sig sem þroskaðri einstakling og stofna oftar til sambanda sem endast.