Bresk könnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að bílstjórar sem nota handfrjálsan búnað á farsímana sína gætu verið svifaseinni og hættulegri undir stýri en þeir sem hafa drukkið nægilegt magn af áfengi til að teljast vera rétt innan löglegra marka þar í landi.
Það kann að koma á óvart að símnotendurnir voru með skertari viðbragðstíma í umferðinni. Rannsóknin var gerð í The Transport Research Laboratory í Berkshire og samkvæmt henni skipti engu máli hvort bílstjórarnir héldu á venjulegum farsíma eða notuðust við handfrjálsan búnað.
Samkvæmt Sky fréttastofunni voru farsímanotendurnir fjórum sinnum líklegri til að valda árekstri og sú hætta var ekki liðin hjá fyrr en 10 mínútum eftir að símtalinu lauk.
„Flestir munu vera sammála um að það sé sú athöfn að halda á síma að eyranu sem dragi athyglina frá akstrinum en í raun er það innihald samtalsins sem veldur því,” sagði Dr Nick Reed sem stóð fyrir rannsókninni.
Þessar niðurstöður hafa leitt til þess að eitt stærsta bílavöruflutningafyrirtæki Bretlands, First Grop mun banna öllum 135 þúsund starfsmönnum sínum að nota farsíma í nokkurri mynd frá og með áramótum.
Einungis þrjú lönd, Japan, Singapore og Portúgal hafa alfarið bannað notkun farsíma undir stýri.