Japanskt fyrirtæki hyggst hanna hraðskreiðustu lest heims innan næstu tveggja áratuga, hátæknilest sem flýtur ofan á segulsviði og nær allt að 500 km hraða.
Áætlað er að hönnun og smíði lestarinnar muni kosta sem svarar 2.870 milljörðum íslenskra króna.
Á lestin að ganga á milli Tókýó og miðhluta Japans. Með þessum hraða myndi taka innan við klukkutíma að ferðast frá Reykjavík til Akureyrar, svo dæmi sé tekið. Aðeins ein lest í heiminum nýtir sér þá tækni sem Japanar ætla að þróa frekar. Ræðir þar um lestina sem gengur frá Pudong-flugvelli í Shanghai til fjármálahverfis borgarinnar. Kemst sú upp í 430 km hraða.
Ljóst er að háhraðalestum í Kína mun fjölga verulega, en greint var frá því að um tíu slíkar lestir yrðu teknar í notkun á leiðinni frá Beijing til Tianjin fyrir sumarólympíuleikana í fyrrnefndu borginni í ágúst 2008. Er nú rætt um allt að 60 nýjar háhraðalestir í Kína.