Líkamshiti nýttur til húshitunar

Líkamshiti þeirra fjölmörgu sem leggja leið sína um aðallestarstöðina í Stokkhólmi verður nýttur til þess að hita upp nýja skrifstofubyggingu í nágrenninu. Um 250 þúsund manns eiga leið um brautarstöðina á hverjum degi.

Í samtali við AFP fréttastofuna segir verkefnastjóri byggingarinnar, Karl Sundholm, að þar sem svo margir eigi leið um brautarstöðina á hverjum degi sé upplagt að nýta eitthvað af þeim hita sem þeim fylgir til upphitunar á byggingum.

Segir hann að fólk myndi mikinn hita og oft geti reynst erfitt að kæla staði niður. Í stað þess að opna glugga og láta orkuna fara út í veður og vind sé um að gera að nýta hann til þess að hita upp vatn sem renna mun inn í nýju bygginguna.

Auk þess að hýsa skrifstofur verður þar rekið lítið hótel og nokkrar verslanir. Áætlað er að húsið verði tekið í notkun árið 2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert