„Þarna er hennar efni notað án leyfis svo þessari síðu verður lokað
umsvifalaust," segir Árni Matthíasson, einn umsjónarmanna blog.is. Síðan
sem um ræðir er bloggsíða þar sem gat að líta sömu færslur og á heimasíðu
Sóleyjar Tómasdóttur varaborgarfulltrúa, eini munurinn var sá að opið var
fyrir athugasemdir en Sóley lokaði fyrir þann möguleika á sinni síðu fyrir
skömmu.
Að sögn Sóleyjar lokaði hún ekki á athugasemdir af þeirri ástæðu að hún
þyldi þær ekki. "Mér fannst gagnlegt að hafa athugasemdirnar þarna inni svo
fólk sæi hvað kvenfrelsisbaráttan á við að etja. En ég ber ritstjórnarlega
ábyrgð á því sem þar birtist."
Árni segir ekki algengt að loka þurfi bloggsíðum, það hafi einungis gerst
um tíu sinnum.