Hekla Sigmundsdóttir, nýdoktor við Stanfordháskóla í Kaliforníu, fékk nýverið rannsóknarstyrk á sviði stofnfrumurannsókna frá Norræna rannsóknarráðinu. Styrkurinn er til tveggja og hálfs árs og nemur tveimur og hálfri milljón norskra króna, eða um 28 milljónum íslenskra króna, og telst því meðal myndarlegustu einstaklingsstyrkja sem íslenskum vísindamanni hefur hlotnast til þessa. Hekla er sérfræðingur í ónæmisfræðum og hefur verið við Stanford um þriggja ára skeið.
Hekla, sem var valin úr stórum hópi umsækjenda, segir styrkveitinguna hafa komið sér nokkuð á óvart. „Það er mikil samkeppni um svona styrki, og hún fer harðnandi. Ég er mjög ánægð fyrir okkar hönd, því þetta er líka viðurkenning fyrir mína samstarfsmenn,“ segir Hekla og á þar við Magnús Karl Magnússon lækni og blóðmeinafræðing og Þórarin Guðjónsson frumulíffræðing. Saman munu þau þrjú mynda kjarnann í stofnfrumuhópi á blóðmeinafræðideild Landspítalans, en rannsókn Heklu beinist að hlutverki stofnfrumna í meingerð hvítblæðis.
Styrkféð mun að sögn Heklu nýtast til margra hluta næstu árin. Annars vegar dugir það fyrir launum, en hins vegar efniskostnaði, þ.e. dýrum og sérhæfðum mótefnum, sem notuð eru til að einangra frumur úr beinmerg og blóði.