Ný pláneta finnst

Stjörnufræðingar komu auga á nýfædda plánetu í stjörnuathugunarstöð í Chile.
Stjörnufræðingar komu auga á nýfædda plánetu í stjörnuathugunarstöð í Chile. HO

Stjörnufræðingar hafa uppgötvað plánetu í sólkerfi sem er ennþá í mótun. Sagt er frá því á fréttavef BBC að talið sé að plánetur þróist innan um gas og rykkorn sem fara hringsólandi á braut í kringum stjörnur sem eru í fæðingu.

Rannsóknir á nýjum plánetum geta sagt stjörnufræðingum margt um fæðingu og þróun stjörnukerfa, að meðtöldu okkar eigin sólkerfi.

Að sögn Johny Setiawan, frá Max Planck stjörnufræðistofnun í Þýskalandi, hefur plánetan nærri tíu sinnum meiri massa en Júpiter, og fer hún í hring kringum TW Hydrae, nálæga stjörnu sem er átta til tíu milljón ára gömul.

Vísindamenn segja að rannsóknin sýni að plánetur geti myndast á innan við tíu milljón árum, það er áður en brautin hefur dreifst vegna stjörnuvinda og geislunar.

Stjörnufræðingar komu auga á plánetuna í stjörnuathugunarstöð í La Silla í Chile.

Stjarnan TW Hydrae er staðsett 182 ljósárum í burtu í stjörnumerkinu Hydra.

Nánari upplýsingar um uppgötvunina er að finna í tímaritinu Nature.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert