Frosinn loðfíll gæti varpað ljósi á loftslagsbreytingar

Vísindamenn skoða frosið hræ af loðfílskálfi.
Vísindamenn skoða frosið hræ af loðfílskálfi. STRINGER/RUSSIA

Vísindamenn vonast til þess að rannsókn á frosnu hræi af 37,500 ára gömlum loðfílskálfi geti útskýrt hvers vegna dýrin dóu út, og gefið vísbendingar um sögu loftslagsbreytinga í heiminum.

Kálfurinn, sem var grafinn upp í Síberíu í maí síðastliðnum, er nánast óskaddaður og hluti af loðfeld hans hefur varðveist.

„Uppgötvun þessi er stórt skref í áttina að því að útskýra ráðgátuna um útrýmingu loðfílsins,” sagði prófessor Noaki Suzuki á blaðamannfundi í Japan.

Vísindamenn telja að mammútar hafi lifað fyrir 4,8 milljón árum þar til þeir dóu út fyrir um 4000 árum síðan.  Deilt hefur verið um hvort loðfílinn hafi útrýmst vegna loftslagsbreytinga eða vegna ofveiði fornmanna.

Kálfinum var gefið nafnið Lyuba, og er hann 1,2 metrar að stærð.  Farið var með hann til Tókýó til frekari rannsókna þar sem vísindamenn settu kálfinn í tölvuskanna og tóku mjög nákvæmar þrívíddarmyndir.

Hræ af loðfílum hafa áður fundist en oftast hafa þau verið mjög illa varðveitt.  Lyuba fannst frosinn og er best varðveitti loðfíllinn sem fundist hefur, að mati sérfræðinga á Shemanovsky Yamal-Nenets safninu í Síberíu.

Vísindamenn vonast til þess að fá betri skilning á uppbyggingu líffæra loðfílsins með greiningu á þrívíddarmyndunum. 

Einnig vonast þeir til að finna vísbendingar um mataræði kálfsins og hvers vegna hann drapst.  Þá munu þeir greina loftsýni úr lungum kálfsins til þess að fá vísbendingar um andrúmsloft jarðar á síðustu ísöld. 

„Uppgötvun Lyuba er sögulegur atburður og gæti útskýrt hvers vegna þessi tegund lifði ekki af, og gæti einnig varpað ljósi á örlög mannkyns,” sagði Bernard Buigues varaforseti alþjóðlegrar loðfílsnefndar í Genf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert