Kínverjar hafa tilkynnt hertar reglur um efni myndbanda á netinu. Vilja þeir setja upp sömu fyrirmynd af ritskoðun á netinu og þeir hafa í sjónvarpi og útvarpi.
Samkvæmt nýju reglunum munu einungis aðilar undir eftirliti ríkisins hafa rétt á að reka vefsíður með myndefni. Í nýrri reglugerð kemur fram að allt myndefni þarf að aðhyllast gildi ríkjandi stjórnmálaflokks.
Í tilkynningu frá stjórnvöldum segir að allt myndefni skuli vera laust við ofbeldi, kynlíf, fjárhættuspil og megi ekki afhjúpa leyndarmál ríkisins. Að auki má myndefni ekki lýsa siðferðislega, þjóðfélagslega, eða pólitískt skaðlegum aðstæðum.
Nýja reglugerðin hefur varpað efasemdum á það hversu frjálslega vefsíður á borð við YouTube og hina kínverska Tudou geti starfað. Á þessum síðum deila notendur eigin myndböndum og hafa slíkar vefsíður verið mjög vinsælar undanfarin ár.
Í nýju reglunum, sem taka gildi 31. janúar, segir að þeir sem vilji birta myndefni á vefsíðum verði að sækja um útsendingarleyfi, sem verður endurnýjanlegt á þriggja ára fresti.
Reglugerðin hefur verið harðlega gagnrýnd af hefðbundnum fjölmiðlum sem nú þegar starfa undir ströngu ritskoðunarkerfi stjórnvalda.
Gagnrýnendur telja stjórnvöld hafa áhyggjur af vinsældum og áhrifamætti sjónvarps á netinu.