14 árum lengra líf með heilbrigðum lífsstíl

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Að borða nóg af ávöxt­um og græn­meti, hreyfa sig, reykja ekki og drekka áfengi í hóf­legu magni get­ur lengt líf fólks um allt að fjór­tán ár. Þetta seg­ir ný rann­sókn, þar sem fylgst var með lífs­hátt­um 20.000 manns í ára­tug.

Í rann­sókn­inni, sem gerð var af há­skól­an­um í Cambridge og breska lækn­aráðinu, kom fram að þeir sem ekki fylgdu nein­um af þess­um fjór­um regl­um voru fjór­um sinn­um lík­legri til að hafa lát­ist á þess­um ára­tug, en þeir sem fylgdu öll­um regl­un­um.

Þannig virðast ein­fald­ar breyt­ing­ar á lífs­hátt­um sam­kvæmt rann­sókn­inni geta lengt líf fólks um­tals­vert, en þykja kannski ekki ný sann­indi.

Þátt­tak­end­ur voru á aldr­in­um 45 til 79 ára og var rann­sókn­in gerð á ár­un­um 1993 til 2006 þar sem fylgst var með hverj­um ein­stak­ling í tíu ár. Stig voru gef­in fyr­ir að reykja ekki, stunda reglu­lega hreyf­ingu, borða fimm skammta af ávöxt­um og græn­meti á dag og drekka í mesta lagi sem svar­ar sjö vínglös­um á viku.

Vís­inda­menn­irn­ir komust ekki aðeins að því að heil­brigður lífs­stíll stuðlaði að lengra lífi, held­ur reynd­ust sex­tug­ir þátt­tak­end­ur sem ekk­ert stig fengu vera jafn lík­leg­ir til að hafa lát­ist og þeir sem voru 74 ára gaml­ir og fengu öll fjög­ur stig­in.

Einnig vakti at­hygli að stétt og efni þátt­tak­enda og lík­amsþyngd­arstuðull höfðu eng­in áhrif á lík­urn­ar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert