Sjálfstýrðir bílar innan 10 ára?

Mynd frá General Motors sem sýnir árekstursvörn sjálfstýrðrar bifreiðar.
Mynd frá General Motors sem sýnir árekstursvörn sjálfstýrðrar bifreiðar.

Hægt verður að setja sjálfstýrða bíla á markaðinn innan áratugar, að sögn stjórnenda bandaríska bílafyrirtækisins General Motors. Verkfræðingar háskóla, GM, birgjar fyrirtækisins og önnur bílafyrirtæki eru að þróa bifreiðar sem geta valdið straumhvörfum í umferðarmálum.

„Þetta er ekki vísindaskáldskapur,“ sagði Larry Burns, aðstoðarforstjóri General Motors, en hann stjórnar rannsóknum og þróunarstarfsemi fyrirtækisins.

Líklegt er að helstu fyrirstöður þess að sjálfstýrðir bílar verði settir á markaðinn innan tíu ára verði ekki tæknilegar heldur opinberar reglugerðir, lög um ábyrgð á bílslysum og ýmsir mannlegir þættir á borð við ánægjuna sem fólk getur haft af því að stjórna sjálft farartæki sínu.

Tæknin sem þarf til að framleiða sjálfstýrða bíla er að miklu leyti til nú þegar: skriðstillir með ratsjá, hreyfingarnemar, rafeinda-stöðugleikastýring og stafræn kortun með hjálp gervihnatta og fleira. Sjálfstýrðir bílar geta orðið til þess að banaslysum fækki, auk sem þeir geta dregið úr umferðarteppum. Það er að segja ef fólk hefur áhuga á þessari tækni. „Núna er spurningin hvað samfélagið vill gera við þessa tækni,“ sagði Larry Burns og bætti við að tæknilega væri ekkert því til fyrirstöðu að framleiða sjálfstýrða bíla.

GM hyggst nota ódýra tölvukubba og loftnet til að tengja saman sjálfstýrða bíla. Líklegt er að búnaðurinn verði fyrst notaður á þjóðvegunum, fólk geti þá notað fjarstýringuna ef það vill en stýrt bílnum sjálft innanbæjar. Burns sagði að fyrirtækið hygðist hefja viðamiklar tilraunir með fjarstýrða bíla ekki síðar en árið 2015 og hefja sölu á slíkum bílum ekki síðar en 2018.

Sebastian Thrun, prófessor í tölvufræði og rafmagnsverkfræði við Stanford-háskóla í Kaliforníu, kveðst vera sammála því að tæknilega sé ekkert því til fyrirstöðu að GM nái þessu markmiði. Hann er hins vegar ekki viss um að hægt verði að setja sjálfstýrða bíla á markaðinn innan tíu ára, m.a. vegna umferðarlaga.

Thrun sagði að sjálfstýrðir bílar myndu auka umferðaröryggið til muna og spáði því að þeir yrðu til þess að dauðsföllum í umferðinni fækkaði um helming.

Thrun fór fyrir liði sem lenti í öðru sæti í keppni fjarstýrðra bíla á vegum bandaríska varnarmálaráðuneytisins í nóvember. Keppnin leiddi í ljós að þessari tækni er enn ábótavant, t.a.m. var eitt liðanna dæmt úr leik eftir að bíll þess ók næstum á byggingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert