Stærsti plasmasjónvarpsskjár sem hingað til hefur verið smíðaður í heiminum er meðal þess sem kynnt er á raftækjasýningunni (CES) sem stendur yfir í Las Vegas. Hann er 150 tommur og 8,84 milljónir pixla.
Frá þessu greinir Jyllands Posten.
Framleiðandi skjásins er Panasonic, og hefur þar með slegið eigið stærðarmet, sem var 103 tommu skjár sem kom á markaðinn í fyrra og seldist í þrjú þúsund eintökum.
Nýja tækið er 1,87 metrar á hæð og 3,3 að breidd. Það á að koma á markað á næsta ári. Verðið hefur ekki enn verið tilkynnt, en í íslenskum krónum talið mun það líklega nema nokkrum milljónum.