Umhverfisverndarsinnar hafa ekki tekið fagnandi þeim fréttum, að til standi að framleiða nýjan smábíl á Indlandi, sem verði ódýrasti bíll sem fram hefur komið til þessa. Óttast er að bíllinn muni auka til muna á það umferðaröngþveiti, sem þegar er til staðar á indverskum vegum.
Það er indverska stórfyrirtækið Tata Group sem ætlar að framleiða bílinn. Auðkýfingurinn Ratan Tata, forstjóri fyrirtækisins, tók þátt í hönnun bílsins sem hann nefnir „bíl alþýðunnar“ og á að kosta sem svarar tæpum 160.000 króna. Hann segir að markmið sitt sé að fá indverskar fjölskyldur til að hætta að nota bifhjól. „Ég vil leggja mitt af mörkum til að gera líf þeirra öruggara.“
Búist er við sala á smábílum nær tvöfaldist á Indlandi á næstu þremur árum vegna aukinnar velmegunar. Um 1,5 milljónir bifreiða eru framleiddar á Indlandi á ári og jafngildir það um 5% landsframleiðslunnar.
Stjórn Indlands áætlar að salan á bílum fjórfaldist fyrir árið 2017.