Risastórt vetnisský stefnir rakleitt á Vetrarbrautina og mun að öllum líkindum skapa miklar sprengingar þegar það rekst á hana, væntanlega eftir 20-40 milljónir ára, að því er stjörnufræðingar segja. Í skýinu er nægilega mikið vetni í milljón stjörnur eins og sólina. Skýið er nefnt eftir Gail Smith, sem uppgötvaði það 1963.
Frá þessu greinir fréttavefur BBC. Brún Smith-skýsins nemur við ystu brún Vetrarbrautarinnar, en vísindamönnum hefur hingað til ekki verið ljóst hvort það væri að nálgast hana eða fjarlægjast. En rannsókn stjörnufræðinga í Bandaríkjunum hefur nú leitt í ljós að skýið nálgast með um 240 km/sek. hraða.
Skýið er nú í 40.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Það mun væntanlega renna saman við Vetrarbrautina í umtalsverðri fjarlægð frá jörðinni. Áreksturinn mun koma af stað bylgjumyndun sem vísindamenn telja að leiði til myndunar fjölda nýrra stjarna.