ESB: Kjöt og mjólkurafurðir klónaðra dýra skaðlausar mönnum

Allar líkur eru á að kjöt- og mjólkurafurðir klónaðra dýra ógni ekki heilsu manna, að því er matvælaöryggisstofnun Evrópusambandsins segir í bráðabirgðaniðurstöðum sem birtar voru fyrir helgi. Þó er tekið fram að einungis séu fyrir hendi takmörkuð gögn um dýraklónun.

Matvælaöryggisstofnunin hvetur til að nánari ráðgjafar verði leitað hjá vísindamönnum og neytendasamtökum, sem hafa andmælt því að afurðir af klónuðum dýrum verði seldar til manneldis. Nú gilda engin lög í ESB um klónun og matvæli, en í fyrra beindi framkvæmdastjórn sambandsins því erindi til matvælastofnunarinnar að hún rannsakaði hvaða hættur kynnu að vera því samfara að mannamatur væri búinn til úr klónuðum dýrum eða afurðum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert