Svarti dauði, eða kýlapest, sem varð mörgum að fjörtjóni í Evrópu á miðöldum, er tekinn að skjóta upp kollinum á ný og er vaxandi ógn, sem þó hefur ekki farið hátt, að því er vísindamenn greindu frá í dag.
Undanfarin 20 ár hafa pestir aðeins orðið eitt til tvö hundruð manns að bana á ári hverju, en tilfella hefur orðið vart í nýjum löndum og er nú farið að bera á þeim í Afríku, segja vísindamenn við Háskólann í Liverpool.
Þótt fjöldi tilfella í fólki sé tiltölulega lítill væru það mistök að horfa framhjá þeirri ógn sem mannkyninu stafar af kýla- og lungnapest, segja þeir í nýjasta hefti vísindaritsins Public Library of Science, vegna þess hve þær eru bráðsmitandi, dreifast hratt og líkur á að þeir sem sýkjast eru miklar fái þeir ekki meðhöndlun.
Báðar þessar pestir geti dregið fólk til dauða á fáeinum dögum séu þær ekki meðhöndlaðar með sýklalyfjum.
Undanfarin fimm ár hafa flest tilfelli verið skráð í Afríkuríkjunum Madagaskar, Tanzaníu, Mósambík, Malaví, Úganda og Lýðveldinu Kongó. Faraldrar virðast nú orðnir fleiri, en voru fremur fátíðir á 20. öld. Fyrir tveim árum kom upp mikill lungnapestarfaraldur í Lýðveldinu Kongó, og talið var að mörg hundruð manns hefðu smitast.