Risaeðlur fjölguðu sér ungar

Nýjar rannsóknir á steingerðum risaeðlubeinum benda til þess að risaeðlur hafi orðið kynþroska um átta ára gamlar, þ.e. mun fyrr en þær urðu fullvaxta. Risaeðlur líktust því spendýrum að þessu leyti þrátt fyrir að þær séu taldar mun skyldari fornum skriðdýrum og fuglum nútímans. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.Fræðimenn við Kaliforníuháskóla í Bandaríkjunum komust að þessari niðurstöðu eftir að þeir fundu merki um eggjavef í steingerðum leifum tveggja ungra kvenrisaeðla. Þá segja þeir að skjótur kynþroski hafi verið skilyrði fyrir afkomu tegundanna þar sem ung kvendýr hafi þannig getað fjölgað sér áður en þau urðu rándýrum að bráð.

Vefurinn, sem um ræðir, er sambærilegur við vef sem notaður er til myndunar eggjaskurnar hjá fuglum. Hann fannst í steingerðum leifum kjötætunnar Allosaurus og grænmetisætunnar Tenontosaurus.

Aldur dýranna var reiknaður úr frá aldurshringjum í beinum þeirra og reyndust þau hafa verið um átta og tíu ára en talið er að dýr af þessum tegundum hafi orðið allt að þrjátíu ára gömul. Einn vísindamannanna Sarah Werning segir mikla heppni að vefurinn skyldi finnast í leifunum þar sem slíkan vef sé einungis að finna í dýrum, sem framleiði hann, í um fjórar vikur á ári.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert