Samkvæmt bandarískri rannsókn getur það hugsanlega komið skurðlæknum að gagni að spila tölvuleiki í leikjatölvum á borð við Wii frá Nintendum, þar sem reynir á hreyfileikni. Sagt er frá þessu á fréttavef BBC. Samkvæmt rannsókninni sem gerð var við Banner Good Samaritan læknamiðstöðina eru reyndar aðeins tölvuleikir sem reyna á fínhreyfingar gagnlegir, en með þeim má ná talsverðum árangri.
Átta skurlæknanemar voru fengnir til að spila tölvuleiki áður en þeir framkvæmdu skurðaðgerð í tölvuhermi, sem notaður er við þjálfun skurðlækna. Nemarnir átta fengu tæplega 50% hærra skor við meðhöndlun skurðækningatækja en aðrir nemar.
Nemarnir léku leikinn Marble Mania, þar sem bolta er stýrt af nákvæmni í gegn um þrívíða þrautabraut, en Kanav Kohel, einn vísindamannanna sem stóðu að rannsókninni segir að væntanlega skipti það máli hvers konar leikir eru spilaðir, varla sé hægt að ná leikni í skurðlækningum með tennisleikjum t.d.
Einkum er talið að ódýr leikjatölva á borð við Wii geti komið að gagni í þróunarlöndum þar sem ekki sé til fjármagn til að kaupa dýr tæki á borð við skurðlækningaherma.
Vísindamennirnir hyggjast kynna rannsóknina formlega á ráðstefnunni Læknavísindi og sýndarveruleiki (Medicine Meets Virtual Reality), sem fram fer í Kaliforníu síðar í mánuðinum.