Versti dagur ársins er í dag samkvæmt kenningu vísindamannsins Cliff Arnall. Þetta má auðveldlega sjá á jöfnu sem Arnall setti upp fyrir nokkrum árum þar sem veður, skuldir og svikin áramótaheit fara saman, á mánudegi að sjálfsögðu.
Jafnan er gjarnan sett svona upp:
V+(G-g) x TN _____________ M x FN
V þýðir slæmt veður, G er skuldahalinn að loknum jólunum, g eru laun, T tími sem liðinn er frá jólum og N stendur fyrir svikin áramótaheit. M stendur fyrir lítinn þrótt og viljastyrk, og FN löngunina til að grípa til aðgerða.
Dagurinn kemur að sjálfsögðu alltaf upp á mánudeginum þar sem ofangreind jafna skilar hæstu niðurstöðu. Vísindamaðurinn Arnall er hins vegar umdeildur og efast jafnvel margir um tilkall hans til titilsins vísindamaður.
Arnall hefur jafnan verið titlaður vísindamaður við Cardiff háskólann, en þar á bæ kannast menn ekki við hann að öðru leyti en að hann starfaði þar sem aðstoðarmaður kennara um tíma.
Þá hafa stærðfræðingar bent á að kenning Arnall um bláa mánudaginn sé illa smíðuð og gangi ekki upp stærðfræðilega séð. Ekki þarf heldur sérfræðing til að sjá að hún á aðeins við um þá sem búa á norðurhveli jarðar, halda jólin hátíðleg og stofna til skulda.
Það hlýtur þó á endanum að vera undir hverjum og einum komið hvort tekið er mark á kenningunni og varla er 21. janúar verri en hver annar dagur til að hljóta þessa leiðinlegu nafnbót.