100.000 ára mennsk hauskúpa finnst í Kína

Hlutir hauskúpu sem fannst í Henan héraði í Kína. Hauskúpan …
Hlutir hauskúpu sem fannst í Henan héraði í Kína. Hauskúpan er sögð vera 100.000 ára gömul. CHINA DAILY

Nær heil 100.000 ára mennsk hauskúpa hefur verið grafin upp í Kína.  Að sögn kínverska dagblaðsins China Daily var hauskúpan grafin upp í síðasta mánuði eftir tveggja ára fornleifauppgröft í Xuchang í Henan héraði í miðju Kína.

Hauskúpan fannst í sextán steingerðum hlutum en hún hafði verið grafin nærri læk með kalkmiklu vatni og því varðveist.  Á hauskúpunni er smátt enni og beinin skaga út úr augntóftunum.

Vonast er til að hauskúpan geti gefið vísbendingar um uppruna mannsins í Austur-Asíu, þar sem mjög lítið af mennskum steingervingum sem eru eldri en 100.000 ára, hafa fundist fyrir utan Afríku.

Í China Daily segir að fundur hauskúpunnar sé „mesta uppgötvun í Kína síðan hauskúpa Peking mannsins fannst í Peking snemma á síðustu öld."  Hauskúpa Peking mannsins er sögð vera 250.000-400.000 ára.

Sérfræðingar eru ekki sammála um mikilvægi þessarar uppgötvunar, og telja sumir að of mikið sé gert úr henni.

„Þetta er ekki mesta uppgötvunin, hingað til sannast aðeins að mannseskjur lifðu í Henan fyrir 80-100.000 árum og lag höfða þeirra var nokkurn veginn eins og hauskúpan," sagði Wu Xinzhi, prófessor við Chinese Academy of Sciences.

Wu segir elsta steingerða hluta af manni sem fundist hafi í Kína vera tönn sem var grafin upp árið 1965 í Yuanmou en hún er sögð vera 1,7 milljón ára gömul.

Fyrir utan hauskúpuna fundust yfir 30.000 steingerð dýr og gripir smíðaðir úr steini og beinum.  Hlutirnir fundust á tveim árum á svæði sem er um 260 fermetrar að stærð.

CHINA DAILY
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert