Gríðarstórt svarthol fundið

Svona telja vísindamenn að svarthol og umhverfi þess gæti litið …
Svona telja vísindamenn að svarthol og umhverfi þess gæti litið út. mynd/Japanska geimferðastofnunin

Stjörnufræðingar hafa fundið risavaxið svarthol, sem er talið vera 18 milljarða sinnum stærra en sólin. Norska blaðið Aftenposten hefur eftir norskum stjörnufræðingi, að ótrúlegir kraftar séu að verki í svartholinu og geislunin þar sé gríðarleg. Svartholið gleypi í sig efni og stjörnur og plánetur séu kramdar með miklum hraða.

Blaðið segir, að hópur finnskra vísindamanna hafi skýrt frá svartholinu á ráðstefnu í Bandaríkjunum. Svartholið, sem nefnt er OJ287, er í öruggri fjarlægð frá okkar sólkerfi eða í 3,5 milljarða ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu krabbanum.

Aftenposten hefur eftir norska stjörnufræðingnum Terje Wahl, að ljós frá þessu svæði hafi fyrst sést á jörðinni árið 1891. Á sjötta áratug síðustu aldar hafi fundist dulstirni á svæðinu en dulstirni er fyrirbæri, sem sendir frá sér öfluga geislun, svo sem ljós, vegna þess að efni fellur inn í svarthol.

Svartholið, sem nú hefur fundist, er sex sinnum stærra en stærsta svarthol sem áður var þekkt.  Annað svarthol, sem er 100 milljónum sinnum stærra en sólin, gengur á sporöskjulagaðri braut umhverfis stóra svartholið. OJ287 hefur jafnframt áhrif á minna svartholið og sá staður þar sem svartholin tvö eru næst hvort öðru breytist með tímanum með sama hætti og sólin hefur áhrif á sporbaug Merkúrs, reikistjörnunnar sem er henni næst.

Blaðið hefur eftir Whal að svartholið sé merkileg sönnun á afstæðiskenningu Einsteins. Lögmál Newtons gat ekki útskýrt sporbaug Merkúrs en afstæðiskenningin hefði verið sú fyrsta, sem varpaði ljósi á áhrif  sólarinnar á Merkúr.

Minna svartholið fer með 20 þúsund kílómetra hraða á sekúndu og mun á endanum fara það nálægt OJ287 að það springur.

„Ég þori ekki einu sinni að hugsa um það. Þetta verður ótrúlega öflug sprenging. Sem betur fer verður hún ekki á okkar tíð heldur eftir 10-20 þúsund ár," hefur blaðið eftir Wahl.

Hann bætir við, að þetta sýni hve við búum á ótrúlega rólegu svæði í alheiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert