Hópur hakkara sem kalla sig „Anonymous“ hefur lagt til atlögu við vefsetur Vísindakirkjunnar á netinu. Markmið hópsins er að ná athygli fjölmiðla til að „bjarga fólki frá Vísindakirkjunni með stöðva heilaþvottinn,“ að því er fram kemur á vefsíðu sem hópurinn heldur úti.
Hakkararnir segjast hafa náð að gera vefsetur kirkjunnar óvirkt með fjöldasendingum á það. Meðlimir hakkarahópsins hafa ekki gefið upp nöfn sín.
Það sem varð til þess að þeir hófu þetta andóf gegn Vísindakirkjunni voru myndbandsbútar sem sýndu Tom Cruise, einn þekktasta meðlim kirkjunnar, tala um mikilfengleik hennar og mikilvægi.
Hópnum hefur orðið nokkuð ágengt í árásum sínum, segir Jose Nazario, sem rekur fyrirtæki sem fylgist með netárásum. Undanfarna daga hefur vefsetur Vísindakirkjunnar (Scientology.org) orðið fyrir allmörgum DDOS-árásum, og segir Nazario að greinilega sé um skipulagðar aðgerðir að ræða.