Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni RIMC 2008, sem snýst um markaðssetningu og viðskipti, er Rob Walk, forstjóri NovaRising. Hann hefur unnið sér orð sem frumherji í nýrri tækni og nýjungum í fjölmiðlun og notkun þeirra við markaðssetningu, til að mynda starfað talsvert með Sky við innleiðingu á gagnvirku sjónvarpi, ruddi brautina fyrir markaðssetningu með tölvupósti á Bretlandi, tók þátt í þróun á 3G þjónustu fyrir Orange og hefur einnig unnið að nýjum verkefnum á sviði netsjónvarps og netsamfélaga fyrir IBM og BBC meðal annars.
Helsta verkefni NovaRising hefur verið vinna að tilraunum með Sky sjónvarpsstöðinni í sambandi við gagnvirkt stafrænt sjónvarp. „Við settum til dæmis upp gagnvirkar auglýsingar sem eru þá þannig að fólk horfði á auglýsingu og gat síðan smellt á hnapp til að fá frekari upplýsingar, en þá birtist einskonar vefsíða, þar sem hægt er að biðja um frekari upplýsingar, fá kannski bækling sendan eða horfa á meira efni um við komandi varning, svo dæmi séu tekin.“
„Sem stendur erum við með í smíðum banka- og tryggingaauglýsingar sem byggjast til að mynda á því að notandi geti til að mynda slegið inn bílnúmer sitt og fengið tilboð um lán eða tryggingu snimmhendis og síðan óskað eftir því að fá frekari upplýsingar, enga getum við miðlað upplýsingum frá notandanum beint til auglýsandans. Við gerum ekki ráð fyrir að fólk sé reiðubúið að kaupa beint í gegnum sjónvarpið en það á eflaust eftir að gerast síðar.“
„Mörg þeirra fyrirtækja sem við höfum unnið með varðandi netsjónvarp horfa mikið til þess hvernig þau geti beint fólki ákveðna leið að efninu, geti tryggt að það fari um gagnarásir sem séu undir stjórn fyrirtækjanna og hægt sér að fylgjast með, en að mínu mati þá snýst þetta fyrst og fremst um sjónvarp ofar netinu,“ segir Walk.
„Því hefur verið haldið fram að það kosti sjö milljónir punda að setja upp sjónvarpsstöð með almennar útsendingar, 700.000 pund að komast inn á útsendinganet Sky, en ekki nema 70.000 pund að setja upp vefsjónvarp. Fyrir vikið er þröskuldur fyrir svo sértækar sjónvarpsrásir orðinn svo lágur að til er sjónvarpsstöðin cycling.tv sem er helguð hjólreiðum. Hún er með svo skýran notendahóp að auglýsendur vilja auglýsa á henni, enda er hún að senda út úti um allan heim.“
„Það verður örugglega hver höndin upp á móti annarri á næstu árum og mikið á eftir að ganga á áður en einn staðall verður ofan á í vélbúnaði, en hér í Bretlandi munu Sky og BBC eflaust ryðja brautina.“