Það er langt síðan bresku Bítlarnir lögðu undir sig heimsbyggðina og nú eru nýir landvinningar - eða geimvinningar - í vændum. Bandaríska geimferðarstofnunin NASA mun á mánudag útvarpa bítlalaginu Across the Universe um vetrarbrautina alla leið til Pólstjörnunnar.
Er þetta í fyrsta skipti, sem dægurlagi er útvarpað út í geiminn. Er þetta gert í tilefni af því, að 40 ár eru liðin frá því umrætt lag kom út og 45 ár liðin frá því að djúpgeimsneti NASA var komið á fót en um það nær stofnunin samband við rannsóknarhnetti sína. Þá eru 50 ár liðin frá því NASA var sett á stofn.
„Sendið kveðju mína til geimveranna," sagði Paul McCartney við NASA.
Lagið, sem John Lennon samdi á sínum tíma, verður sent með ljóshraða út í geiminn en það kemst ekki á áfangastað fyrr en eftir 431 ár.
NASA mun notast við MP3 skrá með laginu og senda það út í geim með stafrænum hætti. Lagið tekur tæpar fjórar mínútur í flutningi og mun útsendingin hefjast á miðnætti á sunnudagskvöld að íslenskum tíma frá sendistöð í Madrid á Spáni.
Hugmyndin að þessari útvarpssendingu á Martin Lewis, Bítlafræðingur í Los Angeles. Hann fékk leyfi frá Paul McCartney, Yoko Ono, og félögunum tveimur sem eiga höfundarrétt að bítlalögunum. Lewis segir að Apple, útgáfufélag Bítlanna, hafi verið fúst til að veita leyfið vegna þess að það sé ávallt að leita að nýjum mörkuðum.