Starfsfólk hvatt til að taka farsímafrí

Starfsfólk í ráðuneyti innflytjendamála í Kanada hefur verið hvatt til að taka því rólega og nota ekki farsíma og svonefnda snjallsíma á kvöldin og í fríum. Er markmiðið að reyna að auka lífsgæði starfsfólksins með því að losa það úr viðjum svonefndrar farsímafíknar.

Aðstoðarráðherrann Richard Fadden dreifði tilkynningu til starfsfólks þar sem það var beðið að hlíta „farsímamyrkvun“ frá klukkan sjö á kvöldin til sjö á morgnana á virkum dögum, auk helga og frídaga.

„Ég legg megináherslu á gott jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, vegna þess að slíkt kemur bæði til góða starfsfólkinu sjálfu og ráðuneytinu,“ sagði Fadden í tilkynningunni.

Með snjallsímum á borð við BlackBerry er hægt að senda tölvupóst og hringja hvar sem maður er staddur, og taka þannig vinnuna með sér hvert sem maður fer. 

Fadden bað ráðuneytisstarfsmenn ennfremur að nota ekki snjallsímana á fundum og forðast að halda fundi í hádegisverðarhléinu. Hann kvaðst gera sér grein fyrir því að á stundum gæti orðið erfitt að fylgja þessum nýju reglum, en bað starfsfólkið að gera hvað það gæti til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert