Heimilisvélmenni kunna á komandi árum að létta undir með starfsfólki í heimilishjálp hjá öldruðum í Noregi, og auðvelda fólki að búa lengur á eigin heimili, að því er framkvæmdastjóri starfshóps tjáði Reuters í dag. Hugmyndin er að vélmenni geti séð um að þvo þvott, leirtau og gólf. Ekki sé þó hugmyndin að vélmennin taki að öllu leyti við heimilishjálp.
Vaxandi skortur er á starfsfólki í heilbrigðisgeiranum í Noregi og mun ástandi fara versnandi næstu tíu árin. Þegar eftirstríðsárakynslóðin fer á eftirlaun um 2020 má svo búast við að virkilega syrti í álinn.
„Hægt verður að nýta tæknina til að leysa hluta vandans,“ sagði Olav Ulleren, formaður hópsins, sem tvö sveitarfélög hafa skipað. „Þannig mætti ennfremur auðvelda fólki að búa lengur á eigin heimili.“
Auk þess að sjá um þvott gætu vélmenni, eða önnur tæki, nýst til heilsufarseftirlits, t.d. með daglegri sýnatöku eða lyfjagjöf, og séð um hreinlæti.
Ekki sé markmiðið að vélmenni komi stað mannlegrar umhyggju og gæsku, heldur auðvelda vinnu í þeim tilvikum þar sem skortur væri á starfsfólki.
Ulleren sagði ennfremur að of snemmt væri að segja til um hvenær vélmenni kynnu að hefja störf við heimilishjálp.