Samkvæmt nýrri skýrslu fyrirtækisins Symantec þá hefur Evrópa tekið við krúnu Ameríku sem sú heimsálfa sem sendir frá sér hvað mest af ruslpósti, eða spam eins og það kallast ytra.
Symantec, sem er hugbúnaðar- og hönnunarfyrirtæki sem sérhæfir sig meðal annars í hönnun vírus- og ruslpóstsvarna, sendir reglulega frá sér skýrslu þar sem finna má alls konar upplýsingar um ruslpóstinn.
Evrópubúar hafa síðastliðna þrjá mánuði verið að sækja í sig veðrið hvað ruslpóstssendingar varðar. Í nóvember á síðasta ári áttu 46 prósent alls ruslpósts rætur sínar að rekja til N-Ameríku en um 31 prósent kom frá Evrópu. Nú er staðan hins vegar orðin sú að 44 prósent alls ruslpósts koma frá Evrópu en Ameríka er með rétt rúm 35 prósent.
Ruslpóstssendingar um heiminn allan hafa aukist gríðarlega og segir Symantec að 78,5 prósent alls tölvupósts sem sendur er í heiminum séu ruslpóstur. Allar heimsálfur hafa aukið þessar óvelkomnu póstsendingar en Evrópa er þar alveg í sérflokki.
Þessi miklu pólskipti í ruslpóstssendingum vilja forsvarsmenn Symantec meina að sé hægt að rekja til aukinnar útbreiðslu háhraðanettenginga í Evrópu. „Þessi gríðarlega aukning á ruslpósti í Evrópu er hægt að setja í samhengi við lista þar sem löndum er raðað eftir fjölda háhraðanettenginga á hverja 100 íbúa en þar eru átta Evrópulönd í efstu tíu sætunum,“ stóð ennfremur í skýrslu Symantec. viggo@24stundir.is