Verið er að prufa nýja aðferð við að merkja farangur á Heathrow-flugvelli og verður nýja kerfið prufað í hálft ár á flugleiðinni milli London og Dubai. Töskur farþega verða merktar með tölvuflögu og nema skannar upplýsingar á flögunni og senda töskuna væntanlega upp í rétta flugvél.
Með þessu nýja kerfi verður jafnvel hægt að láta farþega vita þegar taskan þeirra er komin á töskufæribandið í komusal með sms-skilaboði í farsíma.
„Við bindum miklar vonir við þetta nýja kerfi sem mun geta fylgst með töskum á öllum stigum ferðalagsins og gæti bætt skilvirkni töskuskila á Heathrow," sagði Stephen Challis, talsmaður British Airways í samtali við ITN fréttastofuna.