Almyrkvi á tungli annað kvöld

Árvakur/Brynjar Gauti

Al­myrkvi á tungli verður aðfaranótt fimmtu­dags og verður hann sjá­an­leg­ur frá vestu­hluta Evr­ópu og Afr­íku, aust­ur­hluta Banda­ríkj­anna og frá Mið- og Suður Am­er­íku. Tungl­myrkvi verður þegar sól, jörð og tungl ber sam­an svo jörðin skygg­ir á tunglið og drunga­leg rauð slikja fær­ist yfir það.

Í almanaki Há­skóla Íslands seg­ir að tungl sé í suð-suðaustri frá Reykja­vík séð þegar það snert­ir hálf­skugg­ann þrjá­tíu og fimm mín­út­um eft­ir miðnætti.

Hálf­skugg­inn er dauf­ur og verður myrkvinn ekki áber­andi fyrr en tungl geng­ur í alskugg­ann kl. 1:43. Tunglið verður al­myrkvað frá klukk­an 3 til 3:52 en miður myrkvi er klukk­an 3:26. Tunglið er svo laust við alskugg­ann kl. 5:09  og við hálf­skugg­ann klukk­an 6:17 á fimmtu­dags­morg­un.

Sag­an seg­ir að land­könnuður­inn Kristó­fer Kól­umbus hafi bjargað lífi sínu árið 1504 með þekk­ingu sinni á gangi him­in­tungl­anna.

Kól­umbus var ásamt áhöfn sinni strandaglóp­ur á eynni Jamaíku og voru vist­ir mjög af skorn­um skammti. Inn­fædd­ir voru fjand­sam­leg­ir og neituðu að út­vega Kól­umbusi og mönn­um hans mat.

Kól­umbus er þá sagður hafa litið á almanak sem þýsk­ur stærðfræðing­ur hafði gert og áttað sig á því að al­myrkvi á tungli yrði þann 29. fe­brú­ar árið 1504. Hann kallaði sam­an höfðingja inn­fæddra og varaði þá við því að ef þeir ekki yrðu sam­vinnuþýðir myndi hann láta tunglið hverfa af himni næstu nótt.

Þegar svo rætt­ist úr hót­un­um Kól­umbus­ar urðu inn­fædd­ir skelkaðir og grát­báðu hann um að koma mán­an­um aft­ur fyr­ir á sín­um stað, sem hann þá gerði gegn því að fá þær vist­ir sem hann þurfti á að halda. Kól­umbusi og mönn­um hans var svo bjargað af eynni í júní sama ár.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert