Þeir sem eru óþolinmóðir eru gjarnan haldnir frestunaráráttu og skjóta á frest verkefnum sem þeir myndu aldrei leyfa öðrum að fresta, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sálfræðinga í Bandaríkjunum. Segja þeir að þótt óþolinmæði og frestunarárátta kunni við fyrstu sýn að virðast andstæðir pólar sé þarna í raun um að ræða tvær hliðar á sama teningi.
Frá þessu greinir breska blaðið Daily Telegraph.
Sálfræðingarnir vonast til að niðurstöðurnar auðveldi sér að finna aðferð til að meðhöndla fólk sem haldið er fresturnaráráttu.
Ernesto Reuben stjórnaði rannsókninni, sem gerð var við Kellogg stjórnunarskólann sem tilheyrir Northwestern-háskóla í Illinois.
„Það hefur mjög slæm áhrif á framleiðni fólks í vinnunni ef það skýtur hlutum á frest, og það getur kostað umtalsvert fé,“ segir hann.
„Fólk skýtur hlutunum ekki viljandi á frest - en óþolinmæðin kemur í veg fyrir að það vinni verkin. Það kann að henta betur fyrir þann sem haldinn er frestunaráráttu að þurfa að standa skil á verkum sínum vikulega. Það gæti knúið hann til að ljúka þeim, fremur en að skilafresturinn sé einhverstaðar í óljósri framtíð.“