Þrjú Afríkuríki ætla í fyrsta sinn að vinna saman að því að bjarga fjallagórillum í mið-Afríku. Rúanda, Lýðveldið Kongó og Úganda eru með áform um að efla öryggi fyrir górillurnar, sem eru í bráðri útrýmingarhættu. Sagt er frá þessu á fréttavef BBC.
Górillurnar lifa í fjöllunum þar sem löndin þrjú mætast. Aðeins 700 górillur eru lifandi í heiminum í dag, og er veiðiþjófnaður helsta orsök fækkunar þeirra. Ebóla veiran og eyðing skóga í fjöllum mið-Afríku hafa einnig sett mark sitt á fjallagórillur. Talið er að yfir helmingur allra górilla í heiminum hafi lifað í Virunga þjóðgarðinum sem mætist í Rúanda og Lýðveldinu Kongó.
Yfirvöld í löndunum þremur gera sér grein fyrir mikilvægi górilla þar sem þær færa löndunum tekjur frá ferðamönnum. Ferðamenn borga allt að 500 dollara fyrir leyfi til þess að fylgjast með górillum.
Markmið samvinnuverkefnisins er að reyna að draga úr skógareyðingu og ætlunin er að gefa samfélögum í nágrenni við górillurnar skerf af peningum sem eru þénaðir af górilluskoðunarleyfum.