Æ fleiri verða háðir farsímum sínum, lófatölvum eða öðrum stafrænum samskiptatækjum að mati Nada Kakabadse, prófessors við Háskólann í Northampton. Niðurstöður lítillar rannsóknar sem hún og félagar hennar gerðu á 360 manns benda til að allt að þriðjungur þeirra hafi átt við fíkn að stríða. Hún vinnur að frekari rannsókn á umfangi fíknarinnar.
Í viðtali við breska ríkisútvarpið (BBC) benti hún á að tæknin yrði stöðugt einfaldari og handhægari og um leið aðgengilegri. „Það kæmi þér á óvart hve margir eru með lófatölvurnar við rúmgaflinn,“ sagði hún í viðtali við BBC. „Þeir sem eru háðir vakna tvisvar til þrisvar á næturnar til að athuga skilaboð á lófatölvunum,“ bætti hún við. Fíknin getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Fíklarnir vanrækja gjarnan fjölskyldu sína og þjást jafnvel af kvíða og eirðarleysi þegar tækin eru víðs fjarri. Þá kunna þeir að lenda upp á kant við vinnuveitendur vegna þess tíma sem fer í að sinna skilaboðum í lófatölvum og farsímum.