Bandaríski tölvurisinn Microsoft hefur tilkynnt að fyrirtækið muni gera öllum kleift að sjá tæknina sem er á bak við sum af helstu hugbúnaðarforritum Microsoft. Tilgangurinn með þessu er að auðvelda það að keyra Microsoft-hugbúnað með hugbúnaði keppinautanna.
Microsoft hyggst birta mikilvægar hugbúnaðarupplýsingar á vefsíðu sinni. Þá hefur fyrirtækið heitið því að fara ekki í mál við þá sem þróa opin kerfi, þ.e. kerfi sem allir geta nálgast ókeypis.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið rannsókn á Microsoft á þeim grundvelli að takmarkaður aðgangur að tæknikunnáttu fyrirtækisins geti verið samkeppnishamlandi.