Dómsdagshvelfingin svonefnda, öryggisgeymsla á Svalbarða þar sem fræ mikilvægra plantna frá heiminum öllum eru geymd, var tekin formlega í notkun í dag. Í geymslunum verður hægt að geyma milljónir frætegunda.
Wangari Maathai, friðarverðlaunahafi Nóbels, og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, tóku hvelfinguna formlega í notkun með því að leggja kassa með hrísgrjónum inn í eina kælihvelfinguna.
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fylgdist með dúðaður í kuldanum
„Þetta er hinn frysti aldingarður Eden," sagði hann.
Að sögn Norðurlandaráðs á líffræðilegur fjölbreytileiki undir högg að sækja, ekki síst vegna aukinna loftslagsbreytinga. Náttúruhamfarir gætu orðið afdrifaríkar fyrir plöntuauðlindir jarðar en með öryggisgeymslunum á Svalbarða á að vera tryggt að þurrkar og flóð útrými ekki mikilvægum tegundum
Frægeymslan á Svalbarða er í raun þrír hellar sem sprengdir eru rúmlega hundrað metra niður í bjargið. Sífrerinn og staðsetning geymslunnar langt niður í iðrum jarðar tryggir að fræin haldast frosin, jafnvel þó að rafmagnslaust verði. 18 stiga frost verður í hvelfingunum en bili frystibúnaðurinn tryggir sífrerinn að hitinn fer ekki yfir 3,5 stiga frost.
Norðmenn byggðu og eiga geymslurnar en kostnaðurinn nam jafnvirði um 600 milljóna króna. Norræna ráðherranefndin tekur virkan þátt í starfinu. Norræna stofnunin NordGen, sem vinnur að verndun erfðaauðlinda, mun sjá um rekstur geymslunnar.
NordGen rekur einnig erfðaauðlindabanka Norðurlandanna, sem er með geymslur í Alnarp í Svíþjóð og Årslev í Danmörku. NordGen, hóf starfsemi sína um áramótin, en stofnunin varð til við samruna Norræna genabankans fyrir húsdýr (NGH), Norræn genabankans (NGB) og Norrænu fræ- og plöntunefndarinnar (NGH).