Efast um virkni þunglyndislyfja

Ekki verður séð að ný kynslóð þunglyndislyfja bæti mikið líðan flestra sjúklinga sem taka þau, samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var við Háskólann í Hull í Bretlandi. Niðurstaðan bendir til að einungis lítill hópur þeirra sem verst eru haldnir af þunglyndi fái áþreifanlegan bata fyrir tilstuðlan lyfjanna.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC.

Haft er eftir framkvæmdastjóra geðheilbrigðissamtakanna Sane að fáist þessi rannsóknarniðurstaða staðfest sé það mikið áhyggjuefni.

En framleiðendur lyfjanna Prozac og Seroxat, sem eru meðal algengustu þunglyndislyfjanna af nýju kynslóðinni, hafna niðurstöðunum og segja rannsóknina í Hull einungis hafa beinst að afmörkuðum hluta allra fyrirliggjandi upplýsinga.

Vísindamennirnir í Hull draga ekki í efa að margir telji sig fá bata fyrir tilstuðlan lyfjanna, en þeir halda því fram að um lyfleysuáhrif sé að ræða - það er að segja, sjúklingunum finnist sér líða betur einfaldlega vegna þess að þeir halda að lyfin sem þeir taka hafi áhrif.

Vísindamennirnir í Hull athuguðu niðurstöður úr 47 klínískum rannsóknum, og birta niðurstöður sínar í vísindaritinu PLoS Medicine. Þeir fóru bæði yfir birt og áður óbirt gögn sem þeir fengu aðgang að í samræmi við upplýsingaskyldulög.

Rannsóknin beindist að lyfjum sem auka magn boðefnisins serótóníns í heilanum, en það hefur áhrif á hugarástand. Umrædd lyf kallast „serótónínendurupptökuhemlar,“ eða SSRI. Þeirra frægast er án efa Prozac.

Í ljós kom, að jafnvel þau litlu, jákvæðu áhrif sem lyfin höfðu á þá sjúklinga sem verst voru haldnir af þunglyndi voru tiltölulega lítil og undir túlkunum komin.

Að áhrifin væru jákvæð virtist byggjast á því að lyfleysupillur höfðu ekki eins mikil áhrif á umrædda sjúklinga, fremur en greinilegum viðbrögðum þeirra við þunglyndislyfjunum sjálfum.

Stjórnandi rannsóknarinnar segir að þetta þýði að þunglyndissjúklingar geti fengið nokkurn bata án meðhöndlunar með lyfjum.

Lyfjafyrirtækið Eli Lilly, sem framleiðir Prozac, hafnaði niðurstöðum rannsóknarinnar og sagði að „víðtæk vísindaleg og læknisfræðileg reynsla hafi sýnt fram á“ að Prozac sé „árangursríkt þunglyndislyf.“

.
. Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert