Rannsóknir sýna að Viagra hefur slæm áhrif á sæði karlmanna

Viagra
Viagra

Tilraunir með kynörvunarlyfið Viagra sýna að lyfið skaðar sæði og getur komið í veg fyrir að karlar eignist börn. Erlendis er þekkt að tæknifrjóvgunardeildir gefi körlum Viagra til að örva sæðisframleiðslu. „Það er áhyggjuefni að sumar tæknifrjóvgunardeildir noti Viagra til að auka frjósemi. Pör sem fara á slíkar deildir eiga nú þegar í erfiðleikum með getnað og að gefa körlum efni sem gæti aukið á vandann er varla rétta leiðin,“ segir dr. David Glenn, einn rannsakenda.

Rannsókn Glenns, sem birt verður í næsta hefti tímaritsins Fertility and Sterility, er í tveimur hlutum. Í þeim fyrri voru tekin sæðissýni og böðuð í veikri Viagra upplausn í þeim tilgangi að ná sama styrkleika á Viagra og er í blóði manns sem tekið hefur 100 mg. töflu. Rannsakendur báru svo saman sæðisfrumurnar við aðrar sem ekki fengu Viagrabað. Viagra gerði sæðið virkara en eyðilagði hjálminn í höfði sæðisfrumnanna sem geymir ensímin er gera frumunni kleift að brjótast inn um himnu eggsins. „Hausinn opnast of snemma svo sáðfruman kemst ekki inn í eggið,“ segir Glenn.

Í seinni hlutanum var sama tilraun gerð á sæði músa. Það sæði sem baðað var upp úr Viagra frjóvgaði 40% færri egg en hitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert