Fjölsnertiskjáir svipaðir þeim sem Apple kynnti með iPhone og iPod Touch eru farnir að birtast á ýmsum tækjum. Tæknin gerir enda stjórn tækja mannlegri og auðveldari, ekki síst á litlum skjám.
Bendingar, bank og snertingar sem Apple hefur innleitt virðast svo augljósar að enginn vandi er að læra að stjórna tækjunum. Aðrir framleiðendur gætu þó lent í vandræðum í framtíðinni ef þeir ætla að nota bendingarnar sem fordæmi, því Apple hefur sótt um einkaleyfi á mörgum þeirra.
Sem dæmi má nefna klípuna svokölluðu, „pinch", þar sem þumalfingri og vísifingri er rennt að og frá hvorum öðrum til að stækka eða minnka myndir, einnig það að banka tvisvar laust á tiltekinn myndflöt til að draga að það svæði sem bankað er á.
Fjöldi fyrirtækja, nægir að nefna RIM, sem framleiðir Blackberry síma, Nokia og Synaptics, vinna nú að þróun síma með fjölsnertiskjám þar sem nota má fleiri en einn fingur.
Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að sækja um einkaleyfi á hreyfingum. Í viðtali við tímaritið Wired segir lögfræðingurinn Chad Peterman, sérfræðingur í einkaleyfum, hins vegar að ef bendingarnar séu tengdar við sérsniðnar aðgerðir sé ekki útilokað að einkaleyfi fáist.
Þetta þýðir að Apple gæti haldið forskoti sínu með því að eiga einkaleyfi á vissum bendingum, sem þykja gegnsæjastar, segja sig eiginlega sjálfar, meðan keppinautarnir þurfa að finna nýjar og flóknari bendingar til að stjórna sínum tækjum.
Að auki myndi það þýða að læra þyrfti á hvert einasta tæki sérstaklega í stað þess að hægt verði að nota þekkingu á einu tæki til að stjórna öðru.
Það er mikið í húfi því flestir eru sammála um það að fjölsnertiskjáir séu næsta stóra skrefið í viðmótshönnun, ekki aðeins á smátækjum, heldur yfirleitt á öllu sem hefur skjá á annað borð.
Mark Vena, aðstoðarforstjóri Synaptics, sem framleiðir um 70% þeirra snertiskjáa sem notaðir eru í fartölvum í dag, segist eiga von á því að 80%-90% nýrra fartölva muni notast við snertiskjái og fjölsnertitækni í lok þessa árs.
Það er þó alls ekki víst að Apple fái sitt fram. Fyrir það fyrsta fann fyrirtækið alls ekki upp fjölsnertitæknina, Jeff Han sýndi hana þegar árið 2006, en auk þess sýndi Microsoft frumgerð að borði með stórum fjölsnertiskjá árið 2007, nokkrum mánuðum áður en iPhone síminn var kynntur.
Þar að auki getur það oft tekið nokkur ár að fá skráð einkaleyfi ekki síst þegar glíma þarf við aðra sem sótt hafa um einkaleyfi á sömu eða svipuðum bendingum, t.d. BenQ-Siemens og Nokia.