Steingert „sæskrímsli“ það stærsta sem sögur fara af

Steingert „sæskrímsli“ sem fannst á Svalbarða í hittiðfyrra er stærsta sjávarskriðdýr sem vitað er um í sögu vísindanna, að því er norskir vísindamenn greina frá. Steingervingurinn er um 150 milljóna ára gamall og er einn 40 sem fundist hafa í mikilli „fjársjóðskistu“ steingervinga á eynni.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC.

Vísindamenn hafa kallað steingervinginn „Skrímslið,“ og segja að dýrið hafi verið 15 metra langt. Í nýjustu rannsóknarferð sinni til Svalbarða fundu þeir síðan leifar annars sjávarskriðdýrs sem talið er að hafi verið af sömu tegund og Skrímslið, og jafnvel verið svipað að stærð.

Stjórnandi rannsóknarinnar á Svalbarða er dr Jorn Hurum við Náttúrusögusafn Háskólans í Ósló. Hann segir að sýnið frá Svalbarða sé 20% stærra en stærsta sjávarskriðdýr sem hingað til hefur þekkst, en það var svonefndur Kronosaurus sem fannst í Ástralíu.

„Við höfum kannað allar vísindagreinar og getum nú fullyrt að þetta er stærsta sjávarskriðdýrið,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka