Flýta ætti þróun á notkun vetnis til eldsneytis en með því mætti minnka heildarolíunotkun á bifreiðar um 40% frá og með nú til ársins 2050. Þetta eru niðurstöður evrópsks rannsóknaverkefnis sem styrkt er af 6. rannsóknaáætlun Evrópusambandsins.
Fram kemur á vef RANNÍS að verkefnið heiti HyWays og sé unnið í samvinnu 10 Evrópulanda. Þar kemur jafnframt fram að upplýsingarnar birtist á sama tíma og Evrópusambandið hefur ákveðið að leggja 470 milljónir evra í að flýta þróun vetnistækninnar til að stytta megi þann tíma sem taki að markaðssetja vetnislausnir, en markmiðið er að þær verði komnar í notkun á markaði milli 2010 og 2012.