Vísindamenn við Uppsalaháskóla í Svíþjóð hafa birt niðurstöður nýrra rannsókna er varða uppruna taminna hænsna og þeirra á meðal íslensku landnámshænsnanna. Niðurstöðurnar voru birtar í gær á vefsíðu vísindatímaritsins PLoS Genetics.
Rannsóknarvinnan er ekki síst mikilvæg fyrir þá staðreynd að hún kollvarpar kenningu Charles Darwins um uppruna taminna hænsna, en Darwin hélt því fram að uppruni þeirra væri fremur einfaldur, þ.e. að þau væru komin af rauðum villihænsnum (l. Gallus gallus).
Vísindamennirnir frá Uppsalaháskóla hafa nú afsannað þá kenningu og sýnt fram á að þó hænsnin séu vissulega að mestum hluta komin af rauðu villihænsnunum þá hafi snemma átt sér stað kynblöndun.