Fleiri húsverk - meira kynlíf

Bandarískir karlmenn eru enn ekki orðnir jafn duglegir við heimilisstörfin og konur þeirra, en á heildina litið hafa þeir þó tekið sér tak og eru hvergi nærri jafn latir til húsverkanna og þeir voru, segir í nýrri skýrslu þar sem sálfræðingur kveðst ennfremur telja að aukinn dugnaður karla í þessum efnum leiði til meira kynlífs.

Það var stofnunin Council on Contemporary Families sem birti skýrsluna i dag. Í henni eru dregnar saman niðurstöður nokkurra nýlegra rannsókna á áhrifaþáttum í fjölskyldulífi.

Ein þessara rannsókna leiddi í ljós að framlag karla til heimilisstarfa hefur tvöfaldast á undanförnum fjórum áratugum; önnur rannsókn sýndi að á sama tímabili hafði sá tími sem karlar vörðu við umönnun barna sinna þrefaldast.

Í skýrslunni segir, að þótt enn hafi ekki náðst fullt jafnræði með konum og körlum hafi greinilega orðið grundvallarbreyting, sem ekki verði snúið við, á „leikreglunum.“

Joshua Coleman, sálfræðingur í San Francisco og einn höfnda skýrslunnar, segir að ef heimilisstörfunum sé jafnt deilt geti það leitt til aukinnar hamingju í hjónabandinu og meira kynlífs.

„Ef karlinn sinnir húsverkunum telur konan það vera til marks um að honum þyki virkilega vænt um hana - hann kemur ekki fram við hana eins og þjón. Og ef konan finnur til streitu vegna þess að allt er á öðrum endanum á heimilinu og karlinn liggur í sófanum á meðan hún ryksugar er ekki líklegt að hún sé í miklu stuði,“ sagði Coleman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka