Breskt fyrirtæki hefur hannað myndavél sem getur borið kennsl á vopn, fíkniefni eða sprengjur sem faldar eru undir fatnaði fólks. Hægt er að beita myndavélinni úr allt að 25 metra fjarlægð. Vonast er til að hún marki þáttaskil í öryggisgæslu.
Í myndavélinni er beitt svokallaðri „óvirkri myndhermitækni“ til að bera kennsl á hluti út frá rafsegulgeislum, svonefndum T-geilsum, sem berast frá þeim með náttúrulegum hætti.
Fyrirtækið ThruVision hefur hannað myndavélina og segir hana ekki skaða þann sem henni sé beint að, og hún geti ekki sýnt myndir af líkamanum undir fötunum.