Vaktavinna skaðar fjölskyldulífið

J. M. Harrington, prófessor í Birmingham, hefur m.a. ritað þekkta bók um heilsuvernd starfsmanna og í henni má lesa um niðurstöður helstu rannsókna hans á áhrifum vaktavinnu á heilsu og líðan. Vaktavinna hefur áhrif á eðlislæga dægursveiflu hjá manninum. Manninum er eðlilegt eins og öðrum spendýrum að sofna á kvöldin, vakna á morgnana, borða á nokkurra klukkustunda fresti og menn eru misjafnlega upplagðir til vinnu eftir því hvaða tími sólarhrings er. Fæstum lætur vel að vaka á nóttunni.

Fjölskyldulífið bíður skaða

Vaktavinna hefur áhrif á fjölskyldulíf og þátttöku í félagslífi. Sá sem vinnur vaktavinnu missir af mikilvægum samverustundum fjölskyldunnar sem oft eru um helgar eða á kvöldin þegar flestir eiga frí.

Vaktavinna hefur áhrif á heilsuna á ýmsan hátt. Sumt vaktavinnufólk á erfitt með að fá nægan svefn og nær ekki djúpum svefni. Ýmsir sem vinna vaktavinnu finna fyrir þreytu, kvíða og depurð.

Vaktavinna á misjafnlega við fólk. Talið er að einn af hverjum fimm hætti í vaktavinnu af því að hann þolir hana ekki, 10% fólks nýtur hennar, aðrir þola hana mismunandi vel.

Starfsmenn skipuleggi vaktir

Til þess að fólk geti unnið vaktavinnu án þess að bíða tjón á heilsu sinni skiptir máli að hanna gott vinnuumhverfi og að vaktataflan sé þannig gerð að vaktirnar hafi sem minnst áhrif á andlega, líkamlega og félagslega velferð vaktavinnufólksins. Reynslan sýnir að best er að starfsmennirnir sjálfir komi að skipulagningu vakta. Best er þó að á eftir næturvöktum komi dagvakt og á eftir dagvakt fylgi kvöldvakt þannig að vaktirnar fylgi gangi sólarhringsins, þannig veldur dægursveiflan minna áreiti.

Fyrirtæki sem krefja starfsmenn sína um næturvinnu reyna oft að gera vel við starfsmenn sína í mat því að gott mataræði skiptir verulegu máli upp á vellíðan, auka við heilsuvernd og bjóða upp á fríðindi til frístundaiðkunar.

dista@24stundir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert