Sony kynnir plötuspilara sem má tengja beint við tölvu

Plötuspilari af gamla skólanum.
Plötuspilari af gamla skólanum. mbl.is/Jim Smart

Forsvarsmenn Sony greindu frá því í dag að fyrirtækið muni brátt hefja sölu á plötuspilara sem hægt er að tengja beint við tölvu. Sony segir að þannig geti þeir sem eiga vínylplötur yfirfært tónlistina á stafrænt form með auðveldum hætti.

Hægt verður að tengja plötuspilarann við tölvu með USB-kapli. Með sérstökum hugbúnaði verður hægt að breyta hljóðupptökunni í MP3 eða ATRAC hljóðskrár. Þar með er hægt að spila tónlistina á iPod-tónlistarspilurum eða brenna hana á geisladiska.

Þess ber þó að geta að það er ekkert  nýtt við það að hægt sé að yfirfæra tónlist af vínylplötum á stafrænt form. Ferlið hefur hins vegar verið afar flókið og því hafa fáir, nema þeir sem búa yfir talsverðri tæknikunnáttu, getað yfirfært tónlistina með þessum hætti.

Sony tekur það hins vegar fram að nýi plötuspilarinn muni ekki láta rispuhljóðið, sem einkennir margar gamlar plötur, hverfa. Tæknin leiðir því ekki til þess að tónarnir verði tærari heldur verður gamli plötuhljómurinn með öllum sínum kostum og göllum allsráðandi þegar búið er að færa tónlistina yfir á stafrænt form.

Ólíkt geisladiskum, sem hægt er að brenna á tölvum á nokkrum mínútum, þá verður að leika plötuna í heild sinni þegar færa á hana yfir á stafrænt form.

Plötuspilarinn, sem kallast PS-LX300USB, verður settur í sölu í Japan í apríl nk. og hann mun kosta um 20.000 kr.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert