Risavél flugfélagsins Singapore Airlines, af gerðinni Airbus A380, lenti í á Heathrow flugvelli í London í dag, í fyrsta farþegaflugi vélarinnar til Evrópu. Á fréttavef BBC kemur fram að í vélinni, sem er á tveim hæðum, voru 470 farþegar og tók flugið þrettán og hálfa klukkustund.
Singapore Airlines er með þrjár vélar af þessari gerð í notkun og hefur þeim verið flogið frá Singapore til Sydney í Ástralíu. Vélin var afhent flufélaginu í október eftir miklar tafir á smíði vélarinnar, en kostnaður fór einnig langt fram úr áætlun.
Breska flugfélagið British Airways hefur pantað 12 slíkar vélar sem eiga að verða afhentar í fyrsta lagi 2012, og flugfélagið Virgin Atlantic hefur pantað 6 sem verða afhentar í fyrsta lagi árið 2013.