Rannsókn: Þeir vinsamlegu verða ofan á

Það er rangt sem löngum hefur verið haldið fram, að þeir sem sýni vinsemd og samstarfsvilja verði á endanum undir, en þeir sem einungis hugsi um eigin hag beri sigur úr býtum. Þessi er að minnsta kosti niðurstaða rannsóknar í leikjafræði er gerð var við Harvardháskóla.

Eitt hundrað háskólastúdentar í Boston tóku þátt í rannsókninni, sem fór fram með þeim hætti að þátttakendurnis spiluðu leikinn Fangavalkreppa (Prisoner´s Dilemma) aftur og aftur.

Greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar í tímaritinu Nature á morgun.

Leikurinn gengur út á það hvort fangar vinni saman að því að auka möguleika sína á að sleppa báðir, eða hvort annar þeirra svíkur hinn til að auka líkurnar á að sleppa sjálfur.

Samkvæmt hefðbundinni leikjafræði leiða refsingar til samstarfs tveggja jafningja, en þegar spilað er aftur og aftur kemur í ljós, að til lengri tíma skilar beiting refsingar ekki árangri.

„Við komumst að því, að þegar um einstaklinga er að ræða tapa þeir sem beita refsingum,“ sagði Martin Nowak, höfundur rannsóknarinnar. Í mörgum tilvikum hljóta þeir sem kynda undir ófriði grimm örlög.

„Niðurstöðurnar eru afar jákvæðar,“ segir David Rand, meðhöfundur rannsóknarinnar og framhaldsnemi í líffræði við Harvard. „Almennt er skynsamlegast og best, til að gæta eigin hagsmuna, að vera vinsamlegur.“

Þátttakendur í rannsókninni spiluðu upp á peninga. Í ljós kom, að þeir sem voru refsingaglaðastir græddu minnst, til lengri tíma litið, en þeir sem beittu aðra spilamenn sjaldnast refsingum græddu mest.

Þegar spilamaður tókst á við miskunnarlausan andstæðing borgaði það sig til lengri tíma litið að bjóða hinn vangann og sýna áfram samstarfsvilja - eða beita að minnsta kosti ekki refsingu.

Nowak segist hafa áhuga á að rannsaka framkvæmdastjóra fyrirtækja næst, til að athuga hvort þessar niðurstöður komi einnig fram í raunveruleikanum.

Vefur Nature.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert