Munntóbakneysla eykur hættu á að fá krabbamein

Ný sænsk rannsókn bendir til þess, að neysla munntóbaks auki hættu á að fá krabbamein í vélinda og maga. Fjallað er um rannsóknina í Upsala Nya Tidning og er þar haft eftir prófessor við Karólínsku stofnunina í Stokkhólmi, að þótt tóbaksreykingar séu mun hættulegri en munntóbaksneysla bendi rannsóknin til að munntóbak geti einnig valdið krabbameini.

Um er að ræða samanburðarrannsókn, sem gerð var á 336 þúsund byggingaverkamönnum á 20 ára tímabili. Hún leiddi í ljós, að þrisvar sinnum meiri líkur voru á að þeir sem notuðu munntóbak fengju krabbamein í vélinda en þeir sem ekki notuðu tóbak. Þá var krabbamein í maga 40% algengara meðal þeirra sem notuðu munntóbak en tóbakslausra. Algengast var að krabbameinið gerði vart við sig eftir að mennirnir urðu sjötugir.

Olof Nyrén, prófessor, segir að rannsóknin geti ekki svarað því, hvort krabbameinsvaldandi efni í munntóbaki hafi þessi áhrif á mjög löngum tíma eða hvort eldri mennirnir hafi notað eldri gerðir munntóbaks, sem innihéldu meira magn krabbameinsvaldandi efna en þær yngri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert