Ný bandarísk rannsókn bendir til þess að það auki lífsgæði krabbameinssjúklinga að tjá sig skriflega um sjúkdóm sinn og þann ótta sem hann veldur þeim. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Nancy Morgan, sem hefur sérhæft sig í meðferð sem byggir á skriflegri tjáningu, gerði rannsóknina á meðal sjúklinga í krabbameinsmeðferð í Washington DC í Bandaríkjunum. Leiddu niðurstöður hennar í ljós að um helmingur sjúklinga telur slíka meðferð hjálpa sér og þá sérstaklega yngri sjúklingar.
Greint er frá rannsókninni í tímaritinu The Oncologist en meðferðin sem um ræðir felst í því að sjúklingar gefi sér tuttugu mínútur til að skrifa um líðan sína, batahorfur ogáhrif veikindanna á líf þeirra.
Eftir nokkurra vikna meðferð sögðust 49% þátttakenda í meðferðinni telja hana hafa breytt viðhorfi sínu til veikindanna og 38% sögðu hana hafa haft áhrif á tilfinningaleg áhrif veikindanna.
Morgan segir fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós að það hafi engin áhrif á liðan fólks að skrifa fólk niður staðreyndir um veikindi sín. Umrædd rannsókn sýni hins vegar að það reynist mörgum sjúklingum hjálplegt að skrifa niður persónulegar hugsanir sínar og tilfinningar.