Kínverskir pandabirnir gangast nú undir umfangsmikla kynfræðslu og líkamsæfingaáætlun sem hefur það að markmiði að hvetja þá til að maka sig. Þetta kemur fram í blaðinu China Daily í dag.
Pandabjarnamökunar- og rannsóknarstofnunin í Chengdu í Kína lætur nú karlkyns birni ganga á afturfótunum til að styrkja mjaðmar- og grindarbotnsvöðva þeirra og gera þá hæfari til að maka sig.
Er þetta gert með því að lokka birnina upp á afturfæturna með eplum. Segir blaðið, að æfingarnar líkist dansæfingum en hafi það að markmiði að auka kyngetu dýranna.
Risapöndur hafa almennt lítinn áhuga á að maka sig enda er tegundin í útrýmingarhættu. Í nóvember á síðasta ári voru 239 risapöndur í dýragörðum í Kína og 27 dýr í görðum í öðrum löndum. Talið var að 1590 dýr lifðu villt í Kína.
Ýmislegt hefur verið reynt til að örva kynhvöt þeirra, þar á meðal að sýna þeim einskonar pönduklám. Þá hafa karlpöndur verið sett í búr, þar sem kvendýr var áður, og öfugt, svo dýrin gætu fundið lyktina af hvoru öðru og vanist henni. Dýrin voru síðan sett saman í búr. Ekki kemur fram í China Daily hvort þessi tilraun hafi tekist vel.
Yfir 30% dýranna í Chengdu geta nú makað sig eðlilega en fyrir áratug var þetta hlutfall aðeins 10%.